Jaan Alavere látinn
Stórt skarð hefur verið höggvið í raðir listamanna og starfsfólks Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og verkefnisins SinfoniaNord. Jaan Alavere er látinn langt fyrir aldur fram. Slíkt skarð verður ekki auðfyllt því hæfileikar Jaans voru svo víðfeðmir og sérstakir. Hann valdist til að verða konsetmeistari tveggja sinfóníuhljómsveita á lífsleiðinni. Hann var tónskáld, hann var atvinnuorganisti, hann lék á harmónikku og gítar. Hann spilaði sígilda tónlist, jazz, popp, rokk og þjóðlagatónlist. En helst vildi hann þjóna leikhúsinu, það vita allir sem unnu með honum í Kabarett. Gallsteinum Afa Gissa og Vorið Vaknar. Þar lék hann á ýmis hljóðfæri af mikilli alúð og list. Hann var alltaf mættur fyrstur allra að hita sig upp, fegra rýmið eða aðstoða leikarana við eigin upphitun. Þarna var Jaan í essinu sínu. Sem betur fer hafði hann lokið við að semja söngleik stuttu áður en hann dó. Við hjá Menningarfélagi Akureyrar og SN sendum fjölskyldu Jaans , Mariku, Marít, Marge og Gretu djúpar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd SN
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson